Grenlækur og Fitjárflóð

Grenlækur og Fitjárflóð

Veiðitilhögun í vorveiði.

Vorveiði í Grenlæknum stendur  frá 7. maí til 10. júní.

Einungis fluguveiði er heimil á tímabilinu 7. maí til 10. júní og skal öllum sjóbirting sleppt á því tímabili.
Veiðimenn eru hvattir til að sleppa öllum fiski. Engar takmarkanir eru á veiði vegna staðbundins urriða og bleikju.
Þá er mönnum frjálst að veiða og sleppa.
Leyfilegt agn í vorveiði er einungis fluga.

Veiðitilhögun í sumarveiði.

Sumarveiði hefst 10. júní og eru aðallega væn bleikja og staðbundinn urriði að veiðast fram undir miðjan júlí en frá þeim tíma fara einnig fyrstu birtingarnir að veiðast. Veiðimenn eru hvattir til að sleppa öllum fiski.
Leyfilegur hámarksafli á hverja stöng á dag í sumarveiði er takmarkaður við tvo sjóbirtinga (16 fiskar á hvert holl). Sleppa skal öllum sjóbirtingum sem eru yfir 70 cm að lengd. Engar takmarkanir eru á veiði vegna staðbundins urriða og bleikju. Þá er mönnum frjálst að veiða og sleppa. Leyfilegt agn í sumarveiði er fluga og spónn. Æskilegast er að veitt sé á flugu. Skrá skal allan afla vel og skilmerkilega í veiðibók einnig þeim fiski sem er sleppt.


Veiðibækurnar fyrir bæði Grenlæk og Jónskvísl eru við bæinn Fossa, vel merkt. Vinsamlegast skráið allan afla í þær og setjið á sinn stað en ekki taka með upp í veiðihús þar sem þær gætu gleymst. Ástæðan fyrir þessari staðsetningu er sú að ekki öll veiðifélögin um Grenlæk og Jónskvísl nota veiðihús Kipps

Athugið að merkta fiska skal meðhöndla samkvæmt fyrirmælum veiðivarðar.
Við viljum hvetja veiðimenn til betri skráningar í veiðiskýrslu. Það er mikilvægt að einstaklingsskrá hvern fisk. Það er oft bara skráð að fiskur sé sjógenginn en tegund vantar.
Vel skráðar veiðiskýrslur eru afar mikilvægar fyrir alla sem fylgjast með ánum og vefa ráð um nýtingu, sem og landeigendur og veiðimenn.

Veiðistaðalýsing Grenlækur Flóðið.

VEIÐIMENN ATHUGIÐ – SLÓÐAR VIÐ FLÓÐIÐ ERU EINUNGIS ÆTLAÐIR 4X4 JEPPUM
Flóðið

Svæðið afmarkast af skiltum við veiðisvæðaskil. Að ofan eru veiðiskilin við skilti ofan við Efri-Skurð, en að neðan við skilti sem er staðsett við Neðri-Skurð, neðan við brúna.

Ferðast er um austurbakka veiðisvæðisins því vesturbakkinn er tæplega fær öðrum en fuglinum fljúgandi. Einnig má fara um nánast allt Flóðið á vöðlum, en þó þarf að gæta fóta sinna því á stöku stað er botninn laus í sér. Eins getur gróður flækst fyrir fótum veiðimanna, einkum síðsumars. Bátur hefur verið til ráðstöfunar fyrir veiðimenn en ekki er vitað um ástand hans.

Veiðisvæðið byrjar við tangann rétt ofan við Efri-Skurð en niður af honum breiðir lækurinn úr sér og nefnist þar Fitjaflóð eða Flóðið. Í Flóðinu má á sumrin finna ála með áberandi straumi en annars er vatnið þar kyrrt sem stöðuvatn. Margir telja veiðivon meiri í álunum en aðrir segja að best sé að kasta fyrir fisk við brúnirnar á sefbreiðunum. Enn aðrir segja að vesturbakkinn, þar sem drullupyttirnir eru, sé bestur. Neðri endi Flóðsins endar á svonefndri Trekt. Rennur Grenlækur þar fyrst milli hólma (Hólmasvæðið) og er það gott os fallegt svæði. Síðan sameinast svæðið í Neðri-Skurði allt til neðri veiðimarka sem eru við girðingu spölkorn neðan við brúna. Ekki er síður von á sjóbirtingi í Trektinni og Neðra-Skurði en í Flóðinu og Efri-Skurði.

Veitt er niður fyrir Brú að veiðimerkjum. Veiðistaðir  fyrir neðan brú eru að austan verðu  en vestan  verðu fyrir ofan Brú.